Dagur 1

Hugleiðslu æfing dagsins - Hvernig líður mér

Þá er komið að fyrsta degi í hugleiðslu. Í dag ertu rétt búin/nn að setjast upp í bíl og ert á leiðinni að fjallinu (myndlíking í kynningarmyndbandinu). Vertu með í huga hvernig fjallið ÞITT lítur út. Það getur verið eitthvað sem þú hefur klifið áður eða eitthvað sem þú ímyndar þér.

Í dag ætlar þú að reyna að styrkja það sem er gott og bæta það sem má bæta. Í hugleiðslunni í dag ætlar þú að spyrja þig: „Hvernig líður mér, af hverju og hvað get ég gert í því“. Ef þér líður vel reyndu að komast að því af hverju þér líður vel og hvað þú getur gert til að halda því áfram. Til dæmis „Mér líður vel af því ég náði að hreyfa mig í morgun og það sem ég get gert í því er að halda áfram að ná að hreyfa mig á morgnanna eða halda áfram að einblína á það sem ég geri vel." Ef þér líður illa reyndu að komast að því af hverju þér líður illa og hvað þú getur gert í stöðunni. Til dæmis „Mér líður illa af því að ég á eftir að gera svo margt og það sem ég get gert í því er að skrifa niður allt sem ég á eftir að gera og byrja á einhverju einu og pæla ekki í hinu fyrr en það er búið“. Þér gæti síðan líka liðið hlutlaust eða bara hvorki vel né illa, kannaðu afhverju og hvað þú getur gert í því. Til dæmis mér líður hvorki vel né illa af því það hefur ekkert sérstakt komið upp á og ég hef ekki pælt í líðan minni með þessum hætti áður, ég get orðið meðvitaðri um mig til þess að átta mig betur á mér. Síðan þegar þú ert að eiga þessar samræður við sjálfan þig gæti allt í einu komið upp einhver líðan og þá kannar þú hvað er þarna á bakvið, afhverju og hvort þú getir eitthvað gert í því. Í fyrstu gæti æfingin virst annað hvort frekar löng eða mjög stutt. Það tekur tíma að venjast þessu eins og með allt nýtt sem maður prófar.

*Það gæti verið gott að vera með blað og skriffæri hjá þér ef þú skyldir komast að einhverju í hugleiðslunni sem þú vilt geta minnt þig á. Ef þú ert ekki með blað og skriffæri gætir þú skrifað punkta í símanum.

Back to blog