Dagur 12

Hugleiðsluæfing dagsins - Hvað er ég að einblína á

Ef þú átt erfitt með að hugleiða eða finnst það ennþá ekki vera að gera neitt fyrir þig skaltu vita að það er eðlilegur hluti. Það tekur tíma að finna ávinninginn, en 7 mínútur á dag til lengdar mun gera kraftaverk fyrir þig. Þú veist þú ert byrjuð/aður að vinna með sjálfan þig þegar þú ferð að taka eftir egóinu þínu. Þú getur litið á egóið sem ofvaxið smábarn sem vill fá að stjórna öllu og um leið og þú ert farin/nn að gera eitthvað gott fyrir þig þá fer það hálfpartinn í kerfi og setur allar viðvörunarbjöllur í gang með hugsunum sem eru ætlaðar að láta þig hætta því sem þú ert að gera sem er gott fyrir þig. Ofvaxna barnið er óöruggt og hrætt við breytingar. Því oftar sem þú hugleiðir því meira nærðu að róa egóið og gerir þá oftar hluti sem eru þér í hag.

Í dag ætlar þú að spyrja sjálfan þig sömu spurningu og í gær með því markmiði að vera meira meðvituð/aður um sjálfan þig og að þú ert við stjórnina en ekki að þú farir í gegnum lífið á "autopilot" (sjálfvirkt án þess að hugsa eða vita hvað er í gangi). Spurningin er “Hvað er ég að einblína á í dag, hvaða áhrif er það að hafa á mig, get ég séð það með öðrum hætti“, leyfðu þér að eiga þessar samræður. Þú ætlar að æfa þig í að sjá það „slæma“ með öðrum hætti og finna þá betra viðhorf og ætlar að styrkja það sem þú ert að gera vel og einblína á það meðvitað.

*Það gæti verið gott að vera með blað og skriffæri hjá þér ef þú skyldir komast að einhverju í hugleiðslunni sem þú vilt geta minnt þig á. Ef þú ert ekki með blað og skriffæri gætir þú skrifað punkta í símanum.

Back to blog