Dagur 19

Hugleiðsluæfing dagsins - Hvað er ég að segja um sjálfan mig

Sjálfsvinna getur oft verið flókin. Hugleiðsla er ákveðin sjálfsvinna – þú ert að gefa þér tækifæri til þess að vera meðvitaðri um þig og þá stund sem þú ert í í lífinu. Oft verðum við berskjölduð en á þeim tímapunktum eru svo stór tækifæri til að læra um okkur sjálf. Ef þú verður eitthvað „lítil/lítill“ í þér skaltu taka því fagnandi því þá hefur þú opnað á tækifæri til þess að bæta þig. Dagur 19, þú ert ekkert að fara að hætta við núna, þú ert komin/nn það langt að það yrði synd að snúa við og það stutt að það yrði ennþá meiri synd að gefast upp á þeirri sigurtilfinningu sem fylgir því þegar hugleiðslan er farin að skila ávinning.

Í dag ætlar þú að skoða innra með þér hvað þú ert að segja um sjálfan þig í þeim tilgangi að kanna hvort þú ert að segja ákveðinn hlut/hluti um þig sem eru að draga þig niður og halda þér frá því að verða ÞÚ – hver þú ert í raun og veru. Þegar þú áttar þig meira á þér og áttar þig á þeim hlutum sem eru sjálfskapaðir og vinna á móti þér getur þú byrjað að vera sú útgáfa sem okkur öllum er ætlað að njóta góðs af – tala nú ekki um hvað ÞÚ átt það skilið. Ef þú ert að segja uppbyggjandi hluti þá FRÁBÆRT – áttaðu þig á því í hugleiðslunni, vertu ánægð/ur með það og haltu því áfram. Spurningin sem þú ætlar að spyrja sjálfan þig er „Hvað er ég að segja um sjálfan mig í dag?

*Það gæti verið gott að vera með blað og skriffæri hjá þér ef þú skyldir komast að einhverju í hugleiðslunni sem þú vilt geta minnt þig á. Ef þú ert ekki með blað og skriffæri gætir þú skrifað punkta í símanum.

Back to blog