Dagur 28

Hugleiðsluæfing dagsins - Hvað er ég að einblína á

Það er mismunandi hvað það tekur langan tíma að finna ávinning hugleiðslunnar. Þú gætir verið að finna fyrir ávinning núna, sérstaklega ef þú hefur reynslu af því að hugleiða eða vinna í sjálfri/um þér – alveg eins og ef þú ert vön/vanur að klífa upp fjöll að þá ertu með gott þol þegar þú prófar að klífa upp annað fjall og átt auðvelt með að komast upp á topp. Þú gætir líka ekki fundið fyrir neinu, sérstaklega ef þú hefur aldrei hugleitt áður eða unnið lítið með sjálfan þig– alveg eins og ef þú hefur aldrei labbað upp fjall eða það er mjög langt síðan. Haltu áfram því á endanum þá munt þú finna fyrir ávinning, alveg eins og ef þú værir að klífa fjöll þá myndir þú byggja upp gott þol á endanum.

Í dag ætlar þú að reyna að vera meðvitaðri um hvað þú ert að einblína á. Í hugleiðslunni ætlar þú að spyrja sjálfan þig “Hvað er ég að einblína á í dag, hvaða áhrif er það að hafa á mig, get ég séð það með öðrum hætti“. Ef þú ert að einblína á eitthvað uppbyggjandi reyndu að styrkja það enn frekar, ef þú ert að einblína á eitthvað sem er ekki uppbyggjandi reyndu að sjá það með öðrum augum og einblína á það. Eigðu þessar samræður við sjálfan þig sama hvað kemur upp.

*Það gæti verið gott að vera með blað og skriffæri hjá þér ef þú skyldir komast að einhverju í hugleiðslunni sem þú vilt geta minnt þig á. Ef þú ert ekki með blað og skriffæri gætir þú skrifað punkta í símanum.

Back to blog