Dagur 31

Hugleiðsluæfing dagsins - Eiginleikar

Síðasti dagurinn í hugleiðslupakkanum. Á þessu tímabili hefur þú vonandi upplifað hvað hugleiðsla getur verið góð, að gefa þér smá stund fyrir þig og þekkja betur inn á þig, þá eiginleika sem þú býrð yfir, átta þig á því hverig þér líður, hvað þú ert að einblína á, hvað þú ert að segja um sjálfan þig og hvað þú gætir verið að segja um sjálfan þig dagsdaglega án þess að taka eftir því. Í hugleiðslu ertu að þjálfa „hugarvöðvann“ sem getur verið mjög flókinn en það að gefa þér nokkrar mínútur á dag að þjálfa hann getur skilað sér í meira jafnvægi, innri ró og að þú sjáir hvað þú getur treyst mikið á sjálfan þig því þú þekkir svo vel inn á þig.

Í dags skaltu minna þig aftur á eiginleikana sem þú komst að á degi 21 í hugleiðslu – eiginleikar sem þú laðast að og lítur upp til hjá öðru fólki. Lestu yfir þá því þú ætlar að endurtaka þessa eiginleika aftur og aftur í hugleiðslunni og segja ÉG ER á undan þeim með því markmiði að þú komist skrefinu nær að trúa því sjálf/ur að þú búir yfir þessum eiginleikum. Þú ert að endurstilla þig upp á nýtt með meðvituðum hætti. Ef þú hefur farið í gegnum lífið haldandi að þú sért ekki þessir eiginleikar þá verður þú aðeins lengur að átta þig á þessu.

*Það gæti verið gott að vera með blað og skriffæri hjá þér ef þú skyldir komast að einhverju í hugleiðslunni sem þú vilt geta minnt þig á. Ef þú ert ekki með blað og skriffæri gætir þú skrifað punkta í símanum.

Back to blog