Matarmarkmið

MATARMARKMIÐ

MARKMIÐ 1

Auka vatnsdrykkju. Ef þú ert ekki vön að drekka vatn settu þér það markmið í þessari viku að drekka meira vatn. Það gæti verið hvetjandi að kaupa þér fallega vatnsflösku og/eða setja timer á símann sem minnir þig á að fá þér vatn (það sem virkar fyrir þig). Miðaðu við að drekka amk 2 lítra á dag, meira ef þú ert að gefa brjóst en aldrei þannig að þér finnist þú vera að pína ofan  í þig vatn (vilt ekki skola út sölt og steinefnum líkamans). 


MARKMIÐ 2

Bættu meðvitað við ávöxtum í daginn. Ef þú ert að borða reglulega yfir daginn reyndu að ná inn einum ávexti fyrir hádegi og einum ávexti eftir hádegi - gæti verið hluti af millimáli (t.d. í boost, banani með möndlu- eða hnetusmjöri, epli með möndlu- eða hnetusmjöri, lúka af bláberjum, lúka af jarðaberjum, nokkur vínber, appelsína, hluti af melónu). 

MARKMIÐ 3

Bættu meðvitað við grænmeti fyrir og eftir hádegi. T.d. að nota grænmeti sem álegg á brauð, fá þér salat eða grænmeti með hádegis og/eða kvöldmatnum, fá þér 1/2 agúrku sem hluta af millimál, fá þér 1-2 gulrætur sem hluta af millimál, fá þér 1/2 til 1 papríku sem hluta af millimál. 

MARKMIÐ 4

Prófaðu að bæta við örlítilli fitu inn í daginn, t.d. að fá þér nokkrar hnetur 1x á dag (möndlur, brasilíu hnetur, kasjuhnetur eða öðrum hnetum sem þér þykir góðar). Getur verið gott að miða við 1/2 handfylli. Hnetur eru mjög hitaeingaríkar (ekki vera hrædd við það - það þýðir að þær gefa góða orku), þannig passaðu að "hakka þær ekki í þig" ef þú ert að grípa í þær þegar þú ert svöng heldur frekar byrja að fá þér nokkrar rétt eftir máltíð með það markmið að auka "góðu" fituna yfir daginn. 


MARKMIÐ 5

Hugaðu sérstaklega að próteini. Bættu meðvitað einhverri próteinríkri fæðu inn í daginn. T.d. egg, hleðslu/hámark, skyr, baunir, kotasælu, kjúkling/hakk/kjöt, fisk, tofu. 

MARKMIÐ 6

Skiptu út einfaldari kolvetnum fyrir flóknari kolvetni. Ef þú ert vön að borða fína hafra prófaðu þig áfram með grófari hafra (trölla hafra), ef þú ert vön að fá þér hvítt brauð prófaðu lífskornabrauð eða annað gróft og trefjaríkt brauð. Ef þú ert vön að fá þér kex prófaðu að skipta því út fyrir hrökkbrauð sem er trefjaríkara. 

MARKMIÐ 7

Líttu á mat sem orku. Fáðu inn orku svo líkaminn getur unnið úr henni. Reyndu að fá inn ákjósanlegustu orkuna svo vélin þín vinni sem best. Settu orku inn sem þér líður vel af, sem gefur þér vellíðan, seddu og ánægju.


Back to blog