Matseðill

MATSEÐILL

Að gera matseðil fyrir vikuna er ótrúlega þægileg lausn til þess að einfalda heimilislífið. 


Vert er að taka það fram að matseðill þarf ekki að vera heilagur og því vel hægt að skipta um skoðun í miðri viku, en hann getur verið þægileg lausn til þess að halda sér við efnið yfir vikuna. 


Matseðilinn mælum við með að gera áður en farið er í að gera
innkaupalista vikunnar. Hægt er að byrja á að fara yfir þá hluti sem eru til á heimilinu og vinna matseðilinn út frá því til þess að byrja með. Þú gætir séð fyrir þér hvað þú gætir fengið þér í morgunmat, millimál, hádegismat og kvöldmat og skrifað niður innkaupalista og matseðil út frá því. 

Við getum síðan auðveldað þér lífið í matarþjálfun þar sem við setjum upp fyrir þig matarplan og innkaupalista eftir að við höfum fengið að kynnast þér og þínum matarvenjum. 

Við mælum með að skrifa matseðilinn niður yfir helgina fyrir innkaup á mánudegi eða undir lok vikunnar til að versla fyrir helgina. Það gæti sparað mikinn tíma að versla inn á mánudegi fyrir mánudag, þriðjudag og miðvikudag og á fimmtudegi fyrir fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag. Á mánudegi gætir þú gert innkaupalista fyrir mánudag til miðvikudags og farið í búðina. Þessi aðferð gefur svigrúm til þess að endurskoða matarinnkaupin á fimmtudegi útfrá vikumatseðlinum ef eitthvað hefur til dæmis komið upp á (t.d. ekki haft tíma til að elda eða boðin óvænt í mat), þá getur þú nýtt matinn sem þú keyptir fyrir fimmtudag/föstudag. Ef eitthvað kemur upp um helgina ertu með forskot á matarinnkaup vikunnar og getur keypt minna fyrir byrjun vikunnar. Prófaðu þig áfram með þetta og finndu hvað hentar þér og þínu heimili. Ef fleiri en einn fullorðinn er á heimilinu þá er gaman að gera þetta að samvinnu. Hráefnin eru alltaf til á heimilinu eftir innkaup vikunnar og búið er að ákveða máltíð kvöldsins þannig að þarna er búið að leysa eina stærstu spurningu heimilislífsins ,,hvað eigum við að hafa í kvöldmatinn?’’ Sá aðili sem kemur fyrr heim gæti til að mynda byrjað að undirbúa kvöldmatinn þegar komið er heim og þannig einfaldað kvöldin. Hafðu matseðilinn sýnilegan, t.d. er hægt að kaupa skipulag fyrir matseðilinn hér. Einnig væri hægt að skrifa hann á blað og setja á ísskápinn, skrifa hann í dagbókina eða ef þú ert með notes eða annað app að skrifa hann hjá þér þar. 

→ Hér eru allskonar hugmyndir af vikumatseðlum.

Back to blog