Matar-prepp

MATARPREPP


Það geta verið mismunandi aðstæður og aðbúnaður á vinnustöðum/í skólanum þegar það kemur að máltíðum. Á sumum stöðum er heitur matur í hádeginu og aðgengi að öllum máltíðum, meðan aðrir þurfa að taka með sér mat í vinnuna/skólann. 

Með því að gera nesti deginum eða kvöldinu áður ertu ekki einungis að spara pening heldur að auðvelda þér daginn og spara tíma á morgnana. 


Við mælum með að gera nestið klárt deginum áður, oft tekur það ekki nema örfáar mínútur um kvöldið en sparar töluverðan tíma á morgnanna. Nestið er hægt að geyma í horni inni í ísskáp og á eldhúsborðinu þannig auðvelt er að grípa í það um morguninn. Það er þægilegt að eiga litla tösku utan um nestið, það er hægt að kaupa slíkar töskur til að mynda í Sostrene grene og IKEA.

Hér erum nokkrar hugmyndir af matarpreppi

Morgunmatur: Gott er að finna sér fljótlegan morgunmat eða notast við það sem kallast oft næturgrautur. Þú getur fundið hugmyndir af hvoru tveggja í matarbankanum okkar hér.

Millimál: Þegar kemur að millimálum er gott að undirbúa þau deginum áður eða eiga til eitthvað til þess að geta gripið í fljótlega og tekur enga stund. Hugmyndir af millimálum má finna hér.

Hádegismatur/kvöldmatur: Hádegismatur þarf ekki alltaf að vera heit máltíð en það getur verið mjög hentugt að elda stærri kvöldmáltíðir og nýta afganginn í hádegismat deginum eftir. Annars er einnig mjög þægilegt að líta yfir vikuna við gerð á matseðlinum út frá því hvernig dagskráin er fyrir vikuna. Stundum er eitthvað um að vera á kvöldin og minni tími í eldamennsku. Þá getur verið gott að elda stærri máltíð deginum áður eða jafnvel á degi þar sem þú hefur meiri frítíma. Þú getur síðan sett það í box og átt inn í ísskáp/frysti. Það getur einnig sparað mikinn tíma að elda tvöfaldan skammt af réttum sem þér/fjölskyldunni þykir góðir og eiga þannig til afganga ef það skyldi eitthvað koma upp. Hugmyndir af hádegismat má finna hér. Hugmyndir af kvöldmat má finna hér.

Sætindaþörf: Oft getur sætindapúkinn læðst fram, sérstaklega ef við borðum ekki það sem líkaminn okkar þarf yfir daginn og við endum orkulaus seinni partinn. Síðan finnst sumum það fylgja kaffibollanum að fá sér eitthvað sætt. Gott er að eiga til heilsusamlegra nammi í frysti til þess að geta gripið í eða eiga til 70%+ súkkulaði inn í skáp. Hugmyndir af sætindum má finna hér.

Back to blog