Hoppæfingar

Það er mikilvægt að sleppa öllum hoppæfingum þangað til að þér finnst grindarbotnsvöðvarnir ná að halda þvagi (sjá nánar um grindarbotninn í fræðslumyndbandi). Ef þú prófar einhverja æfingu sem inniheldur hopp og þér finnst þú vera að pissa á þig eða finnur fyrir óþægindum slepptu henni þá. Þú ert ekki að fara styrkja grindarbotnsvöðvann með því að „hoppa þig í gegnum æfinguna“. Einnig þarftu að fara gætilega af stað með allar hoppæfingar þar sem liðamótin þín gætu enn verið laus eftir meðgönguna sökum hormóns (relaxin) sem líkaminn framleiðir á meðgöngunni til að undirbúa hann undir fæðingu. Það getur enn verið til staðar í líkamanum nokkrum vikum jafnvel mánuðum eftir fæðingu. Ef farið er of geyst af stað í sumar æfingar (t.d. hoppæfingar) er hætta á meiðslum vegna lausra liðamóta og hætta á að þú veikir grindarbotninn og ferð að vinna á móti þér.

Æfingaplönin fara stígavaxandi í æfingar og eru ætluð að undirbúa mjaðmasvæðið, grindarbotninn og kviðinn hægt og rólega fyrir allar æfingar, þar á meðal hopp æfingar.

Markmiðið í hoppum er að kenna grindarbotnsvöðvunum að bregðast ósjálfrátt við hoppunum. Það eru kennslumyndbönd í æfingaplönum þegar hoppæfingar eiga sér stað sem sýna hvernig þú getur æft þig með þau en fyrst skrefið er að hafa góða líkamsvitund, byrja að dúa og síðan hoppa og passa að lenda mjúklega.

Back to blog