Þumalputtareglur

1. Drekktu að lágmarki 250ml af vatni 10-30 mín fyrir æfingu. Drekktu eins og þú þarft á æfingu og síðan að lágmarki 250ml strax eftir æfingu. 

2. Vertu vel nærð fyrir og eftir æfingu. Vertu búin að borða máltíð 1-2 tímum fyrir æfingu eða millimál 30-60 mín fyrir æfingu. Reyndu að fá þér millimál eða máltíð innan klst eftir æfingu. 

3. Skoðaðu myndbönd og lestu lýsingar af æfingunum áður en þú framkvæmir þær. Gæti verið gott að vera búin að renna yfir æfingu dagsins kvöldinu áður.

4. Hlustaðu ávallt á líkamann! Ef þú finnur til í einhverri æfingu skaltu hætta og reyna að beita þér betur, sleppa æfingunni eða gera aðra í staðin. 

5. Áður en þú byrjar æfingu skaltu alltaf hugsa hvernig þú berð þig. „Fallegar hreyfingar skila fallegum líkama“.
→ Höfuð á að vera hátt þannig að það er eins og þú sért með spotta á miðju höfði og einhver er að draga þig upp (þá verður bakið beint).
→ Snúðu öxlum aftur í hálfan hring og ýttu þeim niður frá eyrum.
→ Brjóstkassinn fer örlítið fram þannig að herðablöð fara aðeins í átt að hvort öðru en rifbein haldast samt niðri.
→ Ávallt með „laushné“ (s.s. ekki læst) og neðra bak nokkuð hlutlaust (s.s. ekki fatt). Sjáðu myndbandið hér fyrir neðan.

6. Reyndu þitt besta að pæla ekki í öðrum, farðu í þinn eigin heim og hugsaðu bara um þig og þína æfingu. Það má alveg gera mistök – þannig lærir maður, það má alveg gera sig að fífli – þannig styrkist maður (andlega).

7. Mundu að anda í æfingunni! Andar frá við áreynslu, t.d. þegar þú sveiflar ketilbjöllu frá þér, dregur lóð að þér, ýtir þér upp frá gólfi í armbeygju – hver sú sem áreynslan er þá andaru frá þér. 

8. Mundu að slökun er jafn mikilvæg og styrking. Spenntir vöðvar í teygjum getur skilað spenntari líkama - slakir vöðvar í líkamanum getur skilað lengingunni á bandvef og vöðvum sem við erum að leitast eftir. Mundu að slaka þegar þú teygir á vöðvum og í hvíldinni á milli æfinga. Minntu þig á ag gefa eftir í vöðvunum, slaka á kjálka og alveg niður í tær.

Back to blog